Davíð kominn á legudeild og líðan hans er góð

Davíð Oddsson, forsætisráðherra.
Davíð Oddsson, forsætisráðherra.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, er kominn á legudeild á Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut, eftir að hafa gengist þar undir aðgerð í gær. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er líðan Davíðs góð og framfarir eðlilegar, að sögn lækna. Davíð var í gær fluttur á sjúkrahúsið vegna gallblöðrubólgu en við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli í hægra nýra. Forsætisráðherra gekkst undir aðgerð í gær þar sem gallblaðra og hægra nýra voru fjarlægð og gekk aðgerðin að óskum.

Davíð Oddsson mun ekki gegna þingstörfum næstu daga, en Halldór Ásgrímsson gegnir starfi forsætisráðherra í fjarveru hans.

Við upphaf þingfundar í gær greindi Halldór Blöndal, forseti Alþingis, frá því að að Davíd Oddsson hefði óvænt verið fluttur í sjúkrahús og kvaðst hann fyrir hönd þingheims senda Davíð og fjölskyldu hans hlýjar kveðjur og óskir um góðan og skjótan bata. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, vék einnig að veikindum Davíðs í upphafi máls síns er hann mælti fyrir minnihlutaáliti allsherjarnefndar vegna fjölmiðlalaganna og sagðist vonast til þess að forsætisráðherra næði fullri heilsu hið allra fyrsta á ný og að hann talaði í því sambandi fyrir hönd þingsins alls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert