Fjárfestar kaupa hlunnindajarðir og leigja þær áfram

Einkahlutafélög í eigu fjársterkra aðila hafa í vaxandi mæli keypt jarðir víða um land sem fylgja góð hlunnindi, t.d. til veiða- og vatnsréttinda, auk jarða með framleiðslurétt í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Eru þær jarðir þá leigðar áfram til ábúenda til ákveðins tíma í senn.

Fasteignasölum og talsmönnum sveitarfélaga, sem Morgunblaðið ræddi við, bar saman um að þessi áhugi færi stöðugt vaxandi og með aukinni eftirspurn hefði verð á góðum jörðum hækkað töluvert á skömmum tíma. Eftirspurnin kæmi bæði frá einstaklingum og félögum fjárfesta.

Að sögn fasteignasala eru þetta einkum innlendir fjárfestar, áhugi erlendra auðmanna er sagður takmarkaður. Árlega munu á annað hundrað jarðir skipta um eigendur.

Eitt þessara félaga er Lífsval ehf., stofnað fyrir tveimur árum í því skyni að kaupa jarðir og leigja áfram land og landréttindi. Lífsval er í eigu Ingvars J. Karlssonar, stjórnarformanns Karls K. Karlssonar hf., Guðmundar A. Birgissonar á Núpum í Ölfusi og Ólafs I. Wernerssonar tæknifræðings. Aðrir fjárfestar sem sagðir eru umsvifamiklir í sameiginlegum viðskiptum með jarðir eru Jón Ingvarsson, fv. stjórnarformaður SH, og Gunnar Jóhannsson, kenndur við Fóðurblönduna.

Guðmundur á Núpum sagði við Morgunblaðið að félagið Lífsval hefði þá trú að jarðir væru áhugaverður fjárfestingarkostur og ekki síður jarðir sem hefðu yfir nokkrum framleiðslurétti að ráða. Félagið ætti 3-4 slíkar jarðir sem væru í ábúð og ætlunin væri að auka framleiðsluréttinn og gera búin hagkvæmari í rekstri. Þannig þyrftu kúabú að vera með að lágmarki 200-300 þúsund lítra mjólkurkvóta.

Tvö þeirra kúabúa sem Lífsval keypti eru með 300-400 þúsund lítra kvóta. Guðmundur sagði framboð á mjólkurkvóta ekki vera mikið, kúabændur væru margir hverjir að stækka við sig um þessar mundir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert