Hillary Clinton og bandaríska þingnefndin komin til landsins

John McCain, Susan Collins og Hillary Clinton á Keflavíkurflugvelli í …
John McCain, Susan Collins og Hillary Clinton á Keflavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Þorkell

Bandaríska þingnefndin, sem hér er í stuttri heimsókn, lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 10:05 í dag. Bandaríski sendiherrann og yfirmaður varnarliðsins á Íslandi tóku m.a. á móti bandarísku þingmönnunum. John McCain, öldungadeildarþingmaður, sem fer fyrir nefndinni, sagðist vera hingað kominn til að kynna sér ýmis mál, fjalla um loftslagsbreytingar auk þess sem nefndin ætlaði að ræða stöðu varnarmála á Íslandi. Sagðist hann vilja ræða við hina íslensku vini sína og þakka þeim fyrir hina miklu hjálp, sem þeir hafa veitt Bandaríkjunum í langan tíma. McCain hafði orð á því hvað það hefði verið heitt á Svalbarða, þar sem þingmennirnir voru í gær.

Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, sem er í þingnefndinni, sagðist mjög ánægð með að vera komin til Ísland. Hún sagði að nefndin ætlaði að skoða ýmis mál varðandi heimskautasvæði, sérstaklega loftslagsbreytingar og hlýða á fyrirlestra hjá sérfræðingum íslensku ríkisstjórnarinnar um hvað hér hefði verið gert í orkumálum og umhverfismálum.

Susan Collins, öldungadeildarþingmaður, sagðist hafa sérstakan áhuga á því sem Íslendingar hefðu gert í sambandi við vetnisorku. Hún teldi vetnisorkustarfið lofa góðu fyrir framtíð Íslendinga og Bandaríkjamanna. „Við getum lært margt af ykkur," sagði hún. Hillary sagðist myndi hitta Bill, eiginmann sinn, síðdegis og fara með honum til Írlands síðdegis í dag.

Bandaríska þingnefndin mun eiga fundi með íslenskum fulltrúum í Bláa lóninu í dag. Hún hyggst meðal annars eiga fund með fjórum ráðherrum í hádeginu: Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert