Trúnaður milli Kristins H. Gunnarssonar og þingflokks Framsóknar „brostinn“

Svo var komið í samskiptum þingflokks Framsóknarflokksins og Kristins H. Gunnarssonar að trúnaður var brostinn, segir Hjálmar Árnason, formaður þingflokksins, um þá ákvörðun sem tekin var á fundi þingflokksins í kvöld að Kristinn eigi ekki sæti í neinum þingnefndum fyrir hönd flokksins á komandi þingi.

„Það þykir okkur afskaplega miður því að Kristinn er að mörgu leyti afskaplega hæfur og reyndur maður, en við erum að vinna sem liðsheild, en ekki sem einstaklingar,“ sagði Hjálmar.

„Þetta er erfið og sársaukafull ákvörðun, vegna þess að þetta snertir miklar tilfinningar, en það má líkja þessu við það að í nánum samskiptum fólks sem þarf að vinna náið saman, eins og til dæmis hjón, að þegar strengir byrja að bresta í sambandinu leiðir það oft til hnökra, samstarfsörðugleika [...] vináttan hverfur og að lokum kemur þar að trúnaðurinn brestur. Það var svo komið í samskiptum þingflokksins við Kristin H. Gunnarsson,“ sagði Hjálmar ennfremur.

Á fundi þingflokksins í kvöld var ákveðin skipan í þingnefndir fyrir hönd flokksins. Siv Friðleifsdóttir, sem nú verður óbreyttur þingmaður, tekur sæti Hjálmars sem formaður félagsmálanefndar. Hún verður einnig varaformaður utanríkismálanefndar. Hjálmar segir að hafi verið markmið þingflokksins að deila „þungum póstum“ sem jafnast á þingmenn. Það hafi tekist vel.

Þá segir hann, að með nefndarskipaninni hafi þingflokkurinn viljað „senda afskaplega skýr skilaboð til bæði kvenna og ekki síst ungs fólks. Við felum ungu fólki miklar ábyrgðarstöður.“

Dagný Jónsdóttir verður varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar og menntamálanefndar, Jónína Bartmarz er formaður heilbrigðis- og trygginganefndar og varaformaður allsherjarnefndar, Magnús Stefánsson formaður fjárlaganefndar og varaformaður umhverfisnefndar, Birkir J. Jónsson formaður iðnaðarnefndar.

mbl.is