Hætt við afmælisfagnað og andvirðið gefið til söfnunar RKÍ

Samband íslenskra bankamanna (SÍB) verður 70 ára þann 30. janúar. Stjórn SÍB hafði áform um að fagna þeim tímamótum með því að bjóða félagsmönnum og öðrum velunnurum stéttarfélagsins til afmælisfagnaðar föstudaginn 28. janúar og hafa fjármunir verið lagðir til hliðar vegna þessa undanfarin misseri.

Nú hefur stjórn SÍB ákveðið að hætta við afmælisfagnaðinn en afhenda Rauða krossi Íslands á morgun fyrir hönd félagsmanna áætlað andvirði veislunnar, 3 milljónir króna, sem verði varið í aðstoð og uppbyggingu á hamfarasvæðunum við Indlandshaf.

Einnig mun stjórn SÍB beina því til velunnara stéttarfélagsins, innlendra sem erlendra, að þeir sem hafi hugsað sér að færa samtökunum gjafir geri það í formi peninga, sem verða lagðar inn á sérstakan söfnunarreikning vegna flóðanna. Sú upphæð, sem þannig safnast, verður einnig afhent Rauða krossinum á afmælisdag SÍB þann 30. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert