Manna sem frömdu rán í Kópavogi enn leitað

Tveggja manna, sem frömdu rán í 10-11 verslun í Engihjalla í Kópavogi um miðjan dag í dag, er enn leitað. Að sögn lögreglunnar í Kópavogi er verið að vinna úr þeim upplýsingum, sem aflað hefur verið um málið.

Mennirnir, sem taldir eru vera um tvítugt, komu grímuklæddir inn í verslunina og rak annar þeirra skrúfjárn í maga afreiðslustúlku sem þar var við störf. Hótaði hann að stinga hana á hol ef hann fengi ekki peninga úr afgreiðslukassa. Látið var undan kröfunni og komust mennirnir á brott með 20-30 þúsund krónur auk einhvers af tóbaki. Leit að ræningjunum hófst strax og er málið komið í rannsókn.

mbl.is