Listaverk í mynni Eyjafjarðar

Smábátasjómenn, sem voru að koma úr róðri, skoða borgarísjakann í …
Smábátasjómenn, sem voru að koma úr róðri, skoða borgarísjakann í mynni Eyjafjarðar síðdegis í dag. mbl.is/Kristján Kristjánsson

„Þetta er algjört listaverk," sagði Árni Halldórsson skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Níelsi Jónssyni EA á Hauganesi, þegar hann koma að gríðar stórum borgarísjaka í mynni Eyjafjarðar síðdegis í dag.

Árni lét sig ekki muna um að sigla með ljósmyndara Morgunblaðsins á staðinn en jakinn var þá rétt norðan og austan við Hrólfssker.

Jakinn er með tveimur myndarlegum strýtum og sú hærri er um 40 metrar á hæð. Nokkuð hefur brotnað úr borgarísjakanum og voru litlir jakar í kringum hann og því vissara fyrir sjófarendur að fara þarna um með gát.

Árni, sem siglt hefur um Eyjafjörðinn lengi og séð ýmislegt, m.a. í hvalaskoðunarferðum sínum, sagðist ekki hafa séð svona háan borgarísjaka inni á firðinum áður. Jakinn var á hægri hreyfingu inn fjörðinn og því gæti hann sést enn betur og innar á morgun.

Smábátasjómenn, sem voru að komu úr róðri, gátu ekki stillt sig um að sigla að jakanum og skoða hann, enda er ísjakinn tignarlegur að sjá. Guðjón Steingrímsson á Funa EA var að koma úr grásleppuróðri en Hermann Daðason og hans menn á Eiði EA úr snurvoðaróðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert