„Enginn að vinna, allir að hringja til að athuga með vini og vandamenn“

Frá vettvangi í London.
Frá vettvangi í London. AP

„Maður er auðvitað alveg ringlaður, ég er bara búin að vera að hringja í vini mína og komast að því hvort er ekki allt í lagi með alla, þeir virðast allir óhultir,“ segir Valgerður Halla Kristinsdóttir, sem vinnur hjá bandarísku fjármálafyrirtæki í Canary Wharf í miðborg Lundúna. Hún er á skrifstofunni núna og segir að andrúmsloftið sé mjög undarlegt.

„Það er rosalega skrítið andrúmsloftið hérna, fólk er í áfalli, enginn er að vinna, allir eru bara í símanum að athuga hvort er í lagi með vini og vandamenn. Við erum að reyna að kíkja á fréttir á Netinu til að fá upplýsingar, svo veit maður ekki alveg hvort er óhætt að vera hér þar sem við erum,“ segir hún og bætir við að hermenn séu komnir út á götur borgarinnar.

„Ég fór í gegnum Kings Cross innan við klukkutíma áður en sprengjan springur,“ segir hún og bætir við að hún sé fegin að hún mæti snemma í vinnuna. Hún segir fólk vera mjög ringlað og að ýmis konar orðrómur sé í gangi. „Við erum búin að vera að leita að fréttum á Netinu hérna á skrifstofunni og svo er ýmis konar orðrómur í gangi, til dæmis, fréttum við að lögregla hefði skotið sjálfsmorðssprengjuárásarmann til bana hérna rétt hjá, en svo veit maður ekki hvað er rétt og hvað ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert