Dauðadómur yfir áskriftarsjónvarpi SkjásEins

Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri SkjásEins, sagði í fréttum Útvarpsins, að bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins, þar sem ítrekað er að Landssíminn hafi ekki einkarétt á að dreifa Enska boltanum um breiðband og ADSL-tengingar, sé dauðadómur yfir tilraunum SkjásEins til að komast inn á áskriftarsjónvarpsmarkað.

Sagði Magnús, að þessi ákvörðun þýddi að SkjárEinn gæti ekki verið með eitthvað efni sem ekki væri einnig á kerfum samkeppnisaðilans, sem hefði yfirburðastöðu á áskriftarsjónvarpsmarkaði.

Sagði Magnús, að með úrskurði samkeppnisráðs í vor hefði SkjárEinn fengið ívilnun þannig að stöðin gæti haldið þessu efni til tveggja ára. Það hafi nú verið svikið.

mbl.is