Flug af þessu tagi eitthvað sem allir hljóta að fordæma

Eftir Örnu Schram arna@mbl.is
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kveðst aðspurður ekki hafa neinar upplýsingar um það hvort flugvélar, sem flutt hafi fanga til landa þar sem pyntingar eru leyfðar, hafi millilent á Íslandi eða farið um íslenska lofthelgi. Hafi slíkt hins vegar átt sér stað geti hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir, sem aðild eiga að Evrópuráðinu, tekið þátt í því. Slíkt standist heldur ekki mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Halldór segir að þessi mál séu til athugunar hjá Evrópuráðinu og telur brýnt að þeirri athugun verði lokið sem fyrst. Halldór bendir á að ekki sé bannað að flytja fanga eða hryðjuverkamenn með löglegum og eðlilegum hætti milli landa; það sé m.a. í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu flestra þjóða heims um baráttuna gegn hryðjuverkum. "En ef það er verið að flytja fanga á milli landa til að pynta þá og taka upp einhverjar aðrar reglur en gilda í viðkomandi löndum þá stenst það enga skoðun. Hvorki við né aðrar þjóðir sem eiga aðild að Evrópuráðinu getum tekið þátt í því. Það er eitthvað sem allir hljóta að fordæma en vonandi hefur það ekki átt sér stað."

Inntur eftir því hvort ástæða sé til fyrir íslensk stjórnvöld að ræða við Bandaríkjamenn sérstaklega um þessi mál, ítrekar hann að Íslendingar hafi engar sannanir fyrir því að umræddir fangaflutningar hafi átt sér stað. "Við verðum að bíða og sjá hvað kemur út úr þeim athugunum og rannsóknum sem eiga sér stað í Evrópu og Bandaríkjunum."

Menn verða á varðbergi

Hann bætir því við að sem betur fer sé mikil umræða um mál af þessum toga í Bandaríkjunum. "Ef þetta hefur átt sér stað þá mun sannleikurinn koma í ljós, en þetta verður áreiðanlega til þess að menn verða á varðbergi gagnvart slíkum málum."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert