Kirkjan ómissandi hluti jólahátíðarinnar

Fjöldi barna og foreldra mættu í Grafarvogskirkju í dag.
Fjöldi barna og foreldra mættu í Grafarvogskirkju í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil kirkjusókn er í Grafarvogssókn á jólum enda er sóknin sú fjölmennasta á landinu með tuttugu þúsund sóknarbörn og eru fjórir prestar í fullu starfi í kirkjunni. séra Bjarni Þór Bjarnason, prestur í Grafarvogi messaði í barnastund í Grafarvogskirkju kl. 15 í dag. Barnastundin nefnist „Beðið eftir jólunum".Að sögn Bjarna koma börn og foreldrar þeirra í messuna. Þar eru sungnir söngvar, farið með bænir og dansað í kringum jólatré. Í lokin fá börnin jólagjöf frá kirkjunni. Er barnastundin vel sótt enda styttir hún stundirnar hjá börnum sem bíða spennt eftir jólunum.

Í Grafarvogskirkju verður aftansöngur kl. 18 en strengjasveit kirkjunnar leikur frá kl. 17.30. Séra Vigfús Þór Árnason predikar og þjónar fyrir altari. Kór kirkjunnar syngur og Egill Ólafsson syngur einsöng. Auk þess sem fjöldi hljóðfæraleikara taka þátt í aftansöngnum. Að sögn Bjarna Þórs er alltaf fullt út að dyrum í aftansöngnum enda kirkjusókn ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá mjög mörgum Íslendingum.

Á sama tíma er aftansöngur í Borgarholtsskóla þar sem séra Elínborg Gísladóttir predikar og þjónar fyrir altari. Þar syngur lögreglukórinn og Eiríkur Hreinn Helgason syngur einsöng. Anna Sigríður Pálsdóttir predikar og þjónar fyrir altari í miðnæturguðþjónustu kl. 23.30.

Á jóladag mun Bjarni Þór messa kl. 11 í Grafarvogskirkju og verður þeirri messu útvarpað í Ríkisútvarpinu.

Bjarni Þór segir að það sé alltaf gott að koma í kirkjuna á jólum. Messugestir eru í hátíðarskapi og þessi stund er afar dýrmæt í þeirra huga. En á sama tíma eru alltaf einhverjir sem eiga um sárt að binda og fyrstu jólin eftir lát aðstandenda eru afar erfið. Stórhátíðir eru alltaf erfiðar hjá þeim sem eru að fara í gegnum sorgarferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert