Styður að trúfélög fái að gefa samkynhneigð pör saman

Lýðræðis- og jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar samþykkti á fundi í morgun ályktun þar sem fagnað er frumvarpi um réttarstöðu samkynhneigðra. Lýsir nefndin stuðningi sínum við frumvarpið og segist jafnframt styðja fyrirhugaða breytingartillögu á frumvarpinu sem heimilar trúfélögum að gefa saman samkynhneigð pör í hjónaband.

„Fjölskyldan er hornsteinninn í samfélaginu og með því að styrkja ólíkar fjölskyldugerðir í samfélaginu erum við ábyrgara samfélag. Það er von lýðræðis- og jafnréttisnefndar að frumvarpið ásamt breytingartillögu nái fram að ganga og að samkynhneigðir fái notið sömu réttinda og aðrir í þjóðfélaginu," segir í ályktun nefndarinnar.

mbl.is