Leið 5 hjá Strætó lögð af í 4 vikur vegna manneklu

mbl.is/Kristinn

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur gengið erfiðlega að fá afleysingarbílstjóra til starfa hjá Strætó bs yfir sumarleyfistímann. Þrátt fyrir það hefur tekist að halda öllum leiðum Strætó gangandi til þessa. Nú er ljóst að akstur á leið S5 leggst af í fjórar vikur frá með næsta föstudegi, 7. júlí fram til 8. ágúst nk.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að á meðan á þessu stendur vill Strætó benda viðskiptavinum sínum á að þeir geti notfært sér leið 18 (Hálsahverfi) og/eða leið 19 (Árbæjarhverfi – Seláshverfi). Þessar leiðir tengjast leið S6 í Ártúni, en hún ekur sömu leið og S5 inn í miðborgina.

Á þessum árstíma er ætíð nokkur fækkun farþega hjá Strætó vegna sumarleyfa . „Við biðjum viðskiptavini okkar velvirðingar á óþægindum vegna tímabundinna breytinga á akstri vagna umræddrar leiðar. Við vonumst eftir því að okkar góðu viðskiptavinir skilji nauðsyn þessara aðgerða“ segir Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs í tilkynningu.

Það er yfirlýst markmið Strætó að veita ætíð góða þjónustu og vinna skipulega að eflingu almenningssamgagna á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er þessi tímabundna ráðstöfun vegna sumarleyfa mjög bagaleg að mati forráðamanna fyrirtækisins, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is