Guðbjörg Vilhjálmsdóttir hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir leiðtogastörf í náms- og starfsráðgjöf

Bandarísku starfsþróunarsamtökin - National Career Development Association - hafa veitt dr. Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur dósent í félagsvísindadeild Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framlag hennar til menntunar náms- og starfsráðgjafa og stefnumótunar málaflokksins á Íslandi. Guðbjörg tók við verðlaununum, sem veitt eru árlega fyrir leiðtogastörf á alþjóðavettvangi á sviði náms- og starfsráðgjafar, við sérstaka athöfn á ráðstefnu samtakanna í Chicago þann 6. júlí síðastliðinn.

Bandarísku starfsþróunarsamtökin eru víðtækustu samtök náms- og starfsráðgjafa í Bandaríkjunum. Samtökin eru samstarfsvettvangur rannsókna um starfsþróun og hafa að markmiði að efla ráðgjöf um starfsþróun við fólk á öllum aldri. Félagsmenn eru starfandi náms- og starfsráðgjafar á öllum skólastigum eða í einkafyrirtækjum og stunda nám, kennslu og rannsóknir á sviði náms- og starfsráðgjafar.

Guðbjörg hefur veitt forstöðu námi í náms- og starfsráðgjöf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands frá árinu 1991. Náminu var hleypt af stokkunum árið áður, 1990 og þá höfðu innan við tíu Íslendingar hlotið formlega menntun í náms- og starfsráðgjöf. Fram til ársins 2004 var námsleiðin eins árs viðbótarnám við BA. eða BEd gráðu, en undanfarin tvö ár hefur námsráðgjöf verið tveggja ára nám á meistarastigi. Frá upphafi hafa um 200 náms- og starfsráðgjafar hafa útskrifast frá Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert