Kynna þjóðinni tillögu að nýrri brú yfir Öxará

Öxará á Þingvöllum
Öxará á Þingvöllum Golli

Þingvallanefnd hefur ákveðið að kynna þjóðinni tillögu sem fram er komin að nýrri brú yfir Öxará. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og formaður nefndarinnar, segir að kynningin muni fara fram á vefsíðu nefndarinnar, thingvellir.is, og leggur áherslu á að ný brú verði ekki lögð yfir ána komi fram veruleg andstaða við þá hugmynd.

Að sögn Björns Bjarnasonar er von nefndarmanna sú að almenningur tjái sig um tillöguna á vefsíðunni. Tillagan að brúnni er eftir Manfreð Vilhjálmsson arkitekt sem vann hana í samvinnu við verkfræðistofuna Línuhönnun.

Vísað til gliðnunar

Manfreð segir hugmyndina þá að tveir armar gangi frá bökkum árinnar, þó þannig að þeir nái ekki saman. Með þessu verði vísað til gliðnunar landsins á Þingvöllum. Bilið á milli armanna verður úr gleri og mun því fólk geta horft af brúnni niður í Öxará. Glerið verður á hinn bóginn ekki breiðara en svo að menn munu auðveldlega geta klofað yfir það. Brúin verður fyrst og fremst göngubrú en þó verður unnt að aka yfir hana.

Hugmynd Manfreðs er sú að dekk brúarinnar verði klætt harðviði, trúlega hnotu. Kveðst Manfreð með þessu leitast við að fella efnið að umhverfinu. Hið sama mun gilda um arma brúarinnar sem verða úr ryðlitu stáli sem vísar til frumlita náttúrunnar og fellur því að umhverfinu.

„Með þessu efnisvali yrði brúin spengileg og vonandi ekki krefjandi fyrir augað. Mín ætlan er sú að hún verði hófleg og falli vel að staðháttum,“ segir Manfreð Vilhjálmsson.

Björn Bjarnason leggur í viðtali við Morgunblaðið í sunnudagsblaði áherslu á að varlega þurfi að fara í breytingum og uppbyggingu á Þingvöllum enda sé staðurinn helgur í huga þjóðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »