Sameining í mjólkuriðnaði sparar hundruð milljónir króna árlega

mbl.is/Ómar

Umbreyting og hagræðing verða í mjólkuriðnaði, verði af stofnun rekstrarfélags í mjólkuriðnaði um næstu áramót með þátttöku MS, Norðurmjólkur og Osta- og smjörsölunnar og flutningi allrar mjólkurvinnslu frá Reykjavík. Gert er ráð fyrir að hagræðingin skili sér í hundruð milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda, að því er segir í tilkynningu.

Verið er að stíga skrefið til fulls í þeirri samvinnu sem þegar er fyrir hendi milli afurðastöðvanna og ná fram verulegri einföldun í starfseminni og miklum sparnaði í rekstri.

Rekstrarfélagið sem bera mun nafnið Mjólkursamsalan, mun hafa það hlutverk að sjá um alla móttöku, framleiðslu, pökkun, markaðssetningu og sölu- og dreifingu mjólkurafurða fyrir MS, Norðurmjólk og Osta- og smjörsöluna. Mjólkursamlag KS verður rekið í nánum tengslum við rekstrarfélagið og mun fylgja framleiðslustýringu og skipulagningu þess ásamt því að selja rekstrarfélaginu allar sínar afurðir, samkvæmt tilkynningu.

Samhliða stofnun rekstrarfélagsins mun MS kaupa 52% hlut Auðhumlu í Norðurmjólk og greiða fyrir með hlutabréfum í rekstrarfélaginu og peningum. Auðhumla mun þannig eiga beina eignaraðild að rekstrarfélaginu. Þá er gert ráð fyrir að MS kaupi eignir og rekstur Mjólkursamlags Ísfirðinga, yfirtaki skuldir þess og endurkipuleggi rekstur MÍ í kjölfarið.

MS, KS og Auðhumla verða áfram framleiðendafélög, félagslegur vettvangur og mótttakandur mjólkur, en þau munu fela rekstrarfélaginu alla vinnslu og dreifingu. Stofnun rekstrarfélagsins skapar möguleika á að reisa nýja og glæsilega dreifingarmiðstöð fyrir kældar matvörur fyrir höfuðborgarsvæðið og nágrenni en á móti kæmi sala á núverandi húsnæði Osta- og smjörsölunnar og MS í Reyjavík.

Fjallað hefur verið um viljayfirlýsingu KS, MS og Auðhumlu á fulltrúaráðsfundum félaganna að undanförnu og er stefnt að því að eðlilegum fyrirvörum verði aflétt fyrir 22. nóvember næstkomandi og að félagið getið hafið starfsemi um næstu áramót.

„Það er góð samstaða meðal mjólkurframleiðenda um þá meginstefnu að iðnaðurinn leggi sig fram af fremsta megni til þess að draga úr framleiðslu- og dreifingarkostnaði mjólkurafurða”, segir Magnús H. Sigurðsson, formaður Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

„Með því stöndum við best vörð um hagsmuni mjólkurbænda sem eru að sjálfsögðu þeir að sem stærstur hluti afurðaverðsins skili sér í sanngjörnu mjólkurverði til þeirra,” í fréttatilkynningu.

„Samruni MS og Mjólkurbús flóamanna á síðasta ári var á margan hátt kveikjan að þeim viðræðum sem leiddu til stofnunar rekstrarfélagins”, segir Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri MS, í fréttatilkynningu.

mbl.is