Önnur nauðgun kærð um helgina; konur einar á ferð í öllum tilvikum

Kona var dregin afsíðis af tveimur mönnum við Þjóðleikhúsið aðfararnótt …
Kona var dregin afsíðis af tveimur mönnum við Þjóðleikhúsið aðfararnótt laugardagsins s.l. og nauðgað af þeim báðum. Morgunblaðið/ Golli

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík, segir engar kenningar uppi um það að sömu tveir mennirnir hafi nauðgað tveimur stúlkum í miðborg Reykjavíkur upp á síðkastið. „Að bláókunnugir menn ráðist á konur á götum úti er nýlunda og mjög alvarlegt mál að sjálfsögðu," segir Hörður. Í fyrra skiptið var stúlku nauðgað bakvið Menntaskólann í Reykjavík og í seinna skipti var stúlku nauðgað bakvið Þjóðleikhúsið. Þá kærði önnur kona nauðgun nú um helgina, en hún þáði far með ókunnugum manni sem hún segir hafa nauðgað sér.

Það er því þriðja nauðgunarkæran á um hálfum mánuði en sá maður var einn að verki. Hörður segir í öllum tilvikum konur einar á ferð. Nauðganir af þessu tagi séu óalgengar í borginni. Mennirnir hafi horfið út í myrkrið og ekkert vitað hverjir voru á ferð. Litlar sem engar vísbendingar hafi fengist í nauðgunarmálunum.

mbl.is