Átta fluttir á sjúkrahús eftir þriggja bíla árekstur

Átta voru fluttir á sjúkrahús með minniháttar meiðsl þegar þrír bílar rákust saman við norðurenda Hvalfjarðarganganna skömmu fyrir klukkan fjögur í dag. Að sögn lögreglunnar á Akranesi var um aftanákeyrslur að ræða. Rekja má slysið til hálku en mikil hálka var á veginum þar sem slysið varð. Talsverðar tafir urðu á umferð í kjölfar slyssins.

Þá valt bifreið á veginum við Grundartanga um klukkan tvö í dag. Að sögn lögreglu voru eldri hjón í bifreiðinni sem valt í hálku. Kalla þurfti eftir tækjabíl slökkviliðsins og beita þurfti klippum til þess að ná þeim út úr bifreiðinni. Hjónin eru ekki sögð hafa slasast alvarlega.

mbl.is