Árangursríkur fundur um samstarf í öryggismálum

Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is
Íslenskir og norskir embættismenn áttu í gær öðru sinni fund um samstarf þjóðanna í öryggismálum o.fl. í Ósló. Fjallað var áfram um mögulegar leiðir til að auka þetta samstarf og var ákveðið að hefja vinnu við nánari útfærslu þess.

„Við erum samstíga og aðilar eru sammála um að þeir geti unnið saman og vilji vinna saman," sagði Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, eftir fundinn með norsku embættismönnunum síðdegis í gær.

Að sögn hans snúast viðræðurnar að töluverðu leyti um skilgreiningar á atriðum sem varða núverandi samstarf og að finna því ákveðinn farveg. Þau varði m.a. heræfingar, miðlun upplýsinga, samstarf við Landhelgisgæslu, þyrlukaup, samvinnu á vettvangi NATO og samvinnu og upplýsingagjöf í Mannvirkjasjóði NATO, en eins og fram hefur komið eru Íslendingar að fá aðild sjóðnum.

„Á öllum þessum sviðum eru menn sammála um að við séum að fara í rétta átt," segir Grétar Már.

Nota tæknina í stað formlegra fundarhalda á næstunni

Að sögn hans ætla fulltrúar þjóðanna að nota tæknina við áframhald málsins í stað formlegra funda fram í apríl og í framhaldi af því verði svo metið hvort þörf sé fyrir sérstök fundarhöld.

Spurður hvort sú stund sé að renna upp að þjóðirnar geti sest niður og undirritað samkomulag segir Grétar Már að svo sé ekki en menn séu mjög samstíga og ákveðið vinnuferli sé framundan hjá báðum aðilum.

Það sé ekkert eitt mál sem standi út af eða ágreiningur sé um. „Þetta var mjög þægilegur fundur og menn líta hlutina sömu augum."

Í hnotskurn
» Fundurinn með norsku embættismönnunum í gær var annar í röðinni frá því formlegar viðræður hófust milli þjóðanna um varnar- og öryggismál.
» Fyrstu viðræðufundirnir með Norðmönnum og Dönum um þessi mál voru haldnir 18. og 19. desember sl.
» Íslendingar ræddu einnig við fulltrúa breskra stjórnvalda um öryggis- og varnarmál 16. janúar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert