Við erum tilbúnir til að hætta lífinu til að stöðva hvalveiðar Íslendinga

Paul Watson, leiðtogi Sea Shepherd, segist ekki hlusta á Náttúruverndarsamtök Íslands eða aðra þá sem vilji koma í veg fyrir aðgerðir samtakanna gegn hvalveiðum Íslendinga.

„Við erum tilbúin til að hætta lífi okkar til að stöðva hvalveiðar Íslendinga. Þetta er ekki léttúðug herferð. Við erum tilbúin til að fara í fangelsi og gera eins mikið hark og mögulegt er," segir Watson m.a. í svarbréfi til Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndasamtaka Íslands en Ári skrifaði Watson bréf í nafni samtakanna í síðustu viku og hvatti hann til að hætta við boðaðar aðgerðir við Ísland.

„Ef áhöfn af mörgum þjóðernum verður í íslenskum fangelsum sé ég alþjóðlega deilu í uppsiglingu - deilu sem mun afhjúpa ólöglegar hvalveiðar Íslands og sem mun vekja upp mótmælaöldu um allan heim," segir Watson í bréfinu, sem birt er á heimasíðu Sea Shepherd.

Watson skammar Árna fyrir að vísa við vísindaveiða í bréfi sínu og segir hann hljóma eins og talsmann þeirra glæpamanna, sem veiða hvali. Hann lýkur bréfinu með því að segja að hvalirnir tilheyri ekki Íslendingum. „Hvílíkur hroki, að ætla það að einhver hópur manna geti leikið Guð og ráðið örlögum annarra vitiborinna lífsforma á þessar plánetu. Íslendingar eiga ekkert með að ákveða hvort þeir vilja drepa eða ekki. Myndir þú leyfa fjöldamorðingja að ákveða að hætta að eltast við saklaus fórnarlömb? Ég held ekki."

Bréf Watson

mbl.is

Bloggað um fréttina