Forseti Íslands verðlaunaður fyrir baráttu gegn loftlagsbreytingum

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í gær, sunnudaginn 23. september, við verðlaunum fyrir forystu á alþjóðavettvangi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir að stuðla að nýrri sýn á nýtingu hreinnar orku víða um heim.

Verðlaunin eru veitt af Louise T. Blouin stofnuninni sem sett var á laggirnar fyrir fáeinum árum og efnir árlega til leiðtogafundar í New York sem helgaður er þörfinni á nýrri forystu í alþjóðamálum – Global Creative Leadership Summit. Verðlaunin voru veitt í hátíðarkvöldverði leiðtogafundarins en þau hafa áður hlotið m.a. Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og Abdullah II konungur Jórdaníu, samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu.

Í gærkvöldi afhentu Louise T. Blouin og Elie Wiesel handhafi Friðarverðlauna Nóbels forseta Íslands verðlaunin.

„Leiðtogafundinn í New York sækir fjöldi stjórnenda alþjóðastofnana, forystumenn ýmissa ríkja, vísindamenn og sérfræðingar sem og áhrifafólk á vettvangi fjölmiðla og lista. Á fundinum í gær tók forseti Íslands þátt í hringborðsumræðum um ný viðhorf til loftslagsbreytinga og hvernig unnt er að virkja almenning og fyrirtæki í þeirri baráttu.

Þá var einnig fjallað um baráttuna gegn fátækt í Afríku og tækifærin sem ný tækni skapar í þeim efnum. Forseti Malaví var málshefjandi á þeim hluta fundarins. Auk þess verður á málstofum ráðstefnunnar fjallað um stöðuna í Mið-Austurlöndum, áhrif alþjóðavæðingar á viðskipti og borgarsamfélag og breytingar í skólum og á menntakerfi sem ætlað er að búa nýjar kynslóðir betur undir að takast á við vandamál í nýjum heimi," samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina