Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur

Jakob Frímann Magnússon, Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson og Ósk Vilhjálmsdóttir ...
Jakob Frímann Magnússon, Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson og Ósk Vilhjálmsdóttir er þau kynntu framboð Íslandshreyfingarinnar. Þau kynntu framboðið í gær. mbl.i/Rax

Stjórn Landsambands kvenna í Frjálslynda flokknum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að sambandið lýsir vantrausti á Margréti Sverrisdóttur og öll vinnubrögð hennar þar sem hún gekk úr flokknum en situr samt í umboði hans í borgarstjórn. Þá segir að sambandið harmi að sundrung skyldi verða í Frjálslynda flokknum s.l. vetur þegar Margrét Sverrisdóttir og nokkrir stuðningsmenn hennar kusu að segja sig úr Frjálslynda flokknum eftir að hafa tapað í varaformannskjöri fyrir Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

Í yfirlýsingunni segir:

“Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum bendir á að Margrét Sverrisdóttir benti réttilega á hversu óeðlilegt það er að kjörinn fulltrúi stjórnmálaflokks skipti um flokk á miðju kjörtímabili og sitji áfram í þeirri trúnaðarstöðu sem hann var kosinn til upphaflega. Þegar Gunnar Örlygsson sem kosinn var á alþingi fyrir Frjálslynda flokkinn gekk í Sjálfstæðisflokkinn lýsti Margrét Sverrisdóttir því yfir að þetta væri bæði ólöglegt og ósiðlegt að Gunnar skyldi ætla að halda þingsætinu sem með réttu tilheyrði Frjálslynda flokknum. Hún kærði athæfi Gunnars síðan til umboðsmanns Alþingis.

Nú er Margrét Sverrisdóttir í sömu stöðu og situr áfram í sæti sem tilheyrir Frjálslynda flokknum í borgarstjórn Reykjavíkur þó hún hafi sagt sig úr flokknum. Það er sama siðleysið og hjá Gunnari Örlygssyni á sínum tíma.

Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum lýsir vantrausti á Margréti Sverrisdóttur og öll vinnubrögð hennar þar sem hún gekk úr flokknum en situr samt í umboði hans í borgarstjórn. Margrét var ekki kosin persónukjöri heldur voru það atkvæði flokksins, sem veittu henni setu sem varamanni í nafni Frjálslynda flokksins.

Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum skorar á Margréti Sverrisdóttur að fylgja því siðferði sem hún áður boðaði að ætti að gilda í stjórnmálum og segja af sér sem varaborgarfulltrúi þannig að raunverulegur fulltrúi Frjálslynda flokksins setjist í borgarstjórn í stað þeirra sem farnir eru úr flokknum.

Borgarstjórnarflokkur Frjálslyndra og óháðra er óviðkomandi Frjálslynda flokknum meðan fulltrúar annarra flokka en Frjálslynda flokksins sitja sem fulltrúar flokksins á fölskum forsendum. Framkoma Margrétar Sverrisdóttur og tækifærismennska vegna eigin hagsmunagæslu er ekki traustvekjandi fyrir ungar konur sem vilja taka þátt í pólitík og ekki hvetjandi fyrir konur að horfa á vinnubrögð hennar að sitja umboðslaus í borgarstjórn. Margrét Sverrisdóttir situr ekki fyrir og er á engan hátt tengd Frjálslynda flokknum".

mbl.is

Bloggað um fréttina