Bifreið gjöreyðilagðist er hún þeyttist á bensínstöð

Bifreiðin gjöreyðilagðist eins og sést á þessari mynd sem var …
Bifreiðin gjöreyðilagðist eins og sést á þessari mynd sem var tekin í nótt. mbl.is/Frikki

Mjög harður árekstur varð við bensínstöð Skeljungs við gatnamót Kleppsvegar og Sæbrautar í Reykjavík um kl. 1:20 í nótt. Að sögn lögreglu missti ökumaður stjórn á bifreið er hann beygði inn Kleppsveg af Sæbraut. Bifreiðin var á mikilli ferð og endaði hún að hluta inni í bensínstöðinni sem skemmdist mikið. Bifreiðin er gjörónýt. Tveir voru fluttir á sjúkrahús en þeir eru ekki taldir vera alvarlega slasaðir. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og vímuefna.

Að sögn lögreglu ók bifreiðin niður umferðarskilti, rakst á stólpa og hringsnerist á milli bensíndælanna og afgreiðslunnar. Hún hafnaði að endingu með afturendann að hluta inni í afgreiðslu bensínstöðvarinnar. Miklar skemmdir urðu á bensínstöðinni en engin var þar inni þegar slysið varð. Lögregla segir mikla mildi að ekki hafi orðið slys á öðrum vegfarendum.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendi tækjabíl auk nokkurra sjúkrabíla á staðinn. Hún var í um þrjá tíma á vettvangi við hreinsunarstörf. Að sögn SHS var aðkoman mjög ljót og minnti hún meira á flugslys heldur en umferðarslys.

Á meðan lögreglumenn og slökkviliðsmenn voru að störfum á vettvangi í nótt kom önnur bifreið og ók inn á svæðið sem búið var að girða af. Lögreglan segir ökumanninn hafa ekið á ofsahraða og mildi að enginn hafi orðið fyrir henni. Lögreglumenn veittu bifreiðinni eftirför og var ökumaðurinn stöðvaður stuttu síðar. Að sögn lögreglu var ökumaðurinn ölvaður og einnig undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert