Stífar samningaviðræður á Bali

Umhverfisverndarsinnar í ísbjarnarbúningum gengu fylktu liði á Bali í dag …
Umhverfisverndarsinnar í ísbjarnarbúningum gengu fylktu liði á Bali í dag til að leggja áherslu á kröfur um aðgerðir í loftslagsmálum. AP

Samkomulag er enn ekki í höfn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Bali, að sögn Huga Ólafssonar hjá skrifstofu stefnumótunar og alþjóðamála utanríkisráðuneytisins. Hugi er í för með Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra á ráðstefnunni.

Samningaviðræður hafa staðið í allan dag og útlit er fyrir að það takist að ná samkomulagi á laugardagsmorgun, eða eftir miðnætti í nótt að íslenskum tíma.

Fulltrúar Evrópusambandsins og fleiri ríkja, þar á meðal Íslands, hafa krafist þess að iðnríkin skuldbindi sig til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 25 til 40 prósent. Á það hafa fulltrúar Bandaríkjanna, Japan og Kanada ekki viljað fallast. Vonast er til að sátt náist um málamiðlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina