Vill láta reisa Bobby Fischer minnisvarða

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. Árvakur/Sverrir

Björn Ingi Hrafnsson, fráfarandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram þá tillögu á borgarstjórnarfundi í dag er hann tilkynnti afsögn sína, að Bobby Fischer verði reistur minnisvarði við Laugardalshöllina. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að veita Birni Inga lausn frá störfum og tekur Óskar Bergsson því við starfi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Björn Ingi Hrafnsson þakkaði samstarfsfólki sínu fyrir ánægjulegt samstarf og gott. Hann óskaði nýjum meirihluta velfarnaðar í starfi. Hann hvatti borgarbúa til þess að hugsa þau mál sem upp hafa komið að undanförnu og að friður skapist um málefni borgarinnar að nýju.

Björn Ingi segir að sér þyki afar vænt um að hafa náð því fram að frístundakort voru tekin upp í Reykjavík barnafólki til heilla. 

 Hanna Birna Kristjánsdóttir þakkaði Birni Inga kærlega fyrir samstarfið og sagði að það væri miður að hann væri framsóknarmaður,l hann ætti miklu frekar heima í Sjálfstæðisflokknum. Segist hún hafa verið mjög ánægð með að fara í samstarf með honum á sínum tíma.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir að aldrei hafi borið skugga á samstarf hans og Björns Inga og þakkaði Birni Inga fyrir samstarfið undanfarin ár.

Svandís Svavarsdóttir segir að það hafi verið gott að vinna með Birni Inga enda sé hann ástríðustjórnmálamaður. Segist hún óska fjölskyldu Björns Inga til hamingju með daginn og þá sérstaklega Hólmfríði eiginkonu Björns Inga fyrir að hafa endurheimt hann að nýju úr ólgusjó stjórnmálanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina