Alþingi Íslendinga biðjist afsökunar á Breiðavíkurmálinu

Breiðavík.
Breiðavík. Árvakur/Ómar

„Þetta er stór áfangasigur,“ segir Páll Rúnar Elísson, sem dvaldi í Breiðavík um árabil á sjöunda áratug síðustu aldar, um skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar og fagnar einnig yfirlýsingu Geirs H. Haarde forsætisráðherra um að fleiri heimili verði tekin til skoðunar. Páll segir þó ýmislegt vanta í skýrsluna og hefði hann t.a.m. vilja sjá minnst á menntamál auk þess sem honum þykir sjálfsagt að fá afsökunarbeiðni.

„Það var ekki minnst á afsökunarbeiðnina sem ég tel að sé gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins fyrir mig heldur einnig börnin mín,“ segir Páll. „Þegar málið kom upp í febrúar á síðasta ári sagði Geir [H. Haarde] að hann hefði ekkert til að biðjast afsökunar á. Ég tel að það hafi kannski verið fljótfærni því við báðum ekki um það, heldur að Alþingi Íslendinga biðjist afsökunar og þykir mér persónulega að forseti Alþingis ætti að sjá um það – ég fer þá fram á að hann nefni nafnið mitt. Þá myndi ég loksins geta snúið blaðinu við.“

Páll Rúnar segist ekki hafa lesið skýrsluna í þaula en hann hafi þó tekið eftir því að ekki hafi verið minnst á hvernig menntamálum var háttað í Breiðavík. „Því þarna var rekinn málamyndaskóli sem við höfðum voða lítið gagn af. Ég sakna þess að ekki skyldi vera minnst á hann, því þetta eru svona særindi og maður vill fá hlutina fram sem maður bar skaða af. “

Ákveðin viðurkenning og sárabót

Forsætisráðherra gaf það út í gærdag að ríkisstjórnin mundi leggja fram frumvarp til að hægt yrði að greiða þeim sem urðu fyrir ofbeldi á vist- og meðferðarheimilum skaðabætur. Páll Rúnar segir það ákveðna viðurkenningu og sárabót. „Ég sé ekki að það sé nein önnur leið til að bæta þetta nema með peningum. Þó svo að fjármunir græði ekki sárin, þá eru margir svolítið illa staddir og með peningum getur maður náttúrlega hjálpað börnunum sínum.“
Í hnotskurn
» Áttunda apríl 1967 höfðu Páll Rúnar Elísson og Guðbjörn bróðir hans dvalið í Breiðavík í 1.223 daga.
» Martröðinni var lokið því þennan dag flugu þeir aftur í faðm fjölskyldu sinnar í Reykjavík.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert