Vísað frá vegna vanhæfis sýslumanns

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að vísa beri máli frá dómi vegna vanhæfis Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns á Selfossi. Ólafur hyggst senda öll gögn málsins til ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út að nýju.

Í málinu var karlmanni gefið að sök að hafa ráðist að öðrum með hótunum um líkamsmeiðingar, auk þess að taka hann föstu kverkataki, á vistheimilinu að Kumbaravogi á Stokkseyri í desember árið 2006. Ákæra var gefin út rúmu ári síðar. Maðurinn byggði kröfu sína um frávísun á því að í febrúar á síðasta ári hefði hann verið dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir að veitast að sýslumanninum á Selfossi þar sem hann var við störf. Þreif maðurinn í öxl Ólafs og brá fyrir hann fæti. Taldi hann að ákæruvaldið hefði ekki rannsakað meint brot af hlutleysi og alla vega mætti draga hlutleysi sýslumannsins í efa.

Nægir að veitast að mönnum í orði?

Ólafur Helgi lagði fram greinargerð fyrir héraðsdómi. Þar kemur fram að hann telji það senda röng skilaboð út í samfélagið yrði hann dæmdur vanhæfur. Auk þess að þá mætti gera hann vanhæfan í öðrum málum með ýmsum hætti. „Ef menn ráðast að opinberum starfsmönnum, í orði eða verki, þá eru þeir orðnir vanhæfir til að sinna störfum sínum,“ segir Ólafur til skýringar á greinargerðinni. „Þá veltir maður því fyrir sér, hvort maður sem hefur verið ákærður geti dregið upp bloggskrif þar sem hann veitist að viðkomandi embættismanni, og hvort viðkomandi embættismaður verði þar með vanhæfur.“

Þrátt fyrir greinargerð sýslumannsins komst Héraðsdómur Suðurlands að þeirri niðurstöðu að líta mætti svo á að sýslumaðurinn á Selfossi væri „svo við ákærða riðinn“ að draga mætti hlutleysi hans í efa. Hæstiréttur staðfesti svo þá niðurstöðu.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Kjartan Pétur Sigurðsson: :)
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »