Flugbann ekki virt

Sjö mílna flugbann hefur ekki verið virt.
Sjö mílna flugbann hefur ekki verið virt. mbl.is/RAX

„Ég er ekki viss um að hann sé rólegur yfir því að flugvélar séu að fljúga yfir hausinn á honum," sagði Hilmar Hilmarsson varðstjóri lögreglunnar á Blönduósi sem vildi koma þeim tilmælum til flugmanna að þeir virði 7 mílna flugbann sem er í gildi umhverfis Hraun á Skaga og hvítabjörninn.  

„Rétt í þessu var flugvél að fljúga yfir, rétt um 20 - 30 metra frá birninum en það er verið að reyna að halda honum rólegum og því var sett 7 mílna flugbann," sagði Hilmar við Fréttavef Morgunblaðsins.

Reiknað er með að danskur sérfræðingur verði kominn að Hrauni um klukkan þrjú í dag. Flogið verður beint frá Kaupmannahöfn til Akureyrar með manninn og búnaðinn og þaðan mun þyrla Landhelgisgæslunnar flytja hann að Hrauni.

Þyrlan er sem stendur á Sauðárkróki til að geta fylgt bjarndýrinu eftir ef það skyldi fara upp til fjalla.

mbl.is