Viðurkennum ekki annað en hamingju

Greinin eins og hún birtist í L'Espresso.
Greinin eins og hún birtist í L'Espresso.

Ítalska vikublaðið L’Espresso birti á föstudag langa grein um Ísland eftir íslenska blaðamanninn Sigríði Víðis Jónsdóttir. Ritstjóri blaðsins hafði samband og vildi fá grein frá Íslendingi um hvað væri satt og rétt þessa dagana í umfjöllunum um Ísland.

„Ritstjóri L’Espresso hringdi í mig og sagði að Ísland væri í tísku þessa dagana. Vart væri hægt að opna blöð án þess að sjá umfjöllun um Ísland og hann vildi fá að vita hvort það sem væri að birtast væri nú alltaf sannleikanum samkvæmt,“ segir Sigríður.

Ritstjórinn vildi ekki bara fá álit Íslendings á efnahagslegri umfjöllun heldur líka á hlutum eins og íslenskri matargerð, jarðvarma, meintri lífshamingju og fleira en allt þetta hefði verið fjallað um nýlega í erlendum fjölmiðlum. Sigríður kemur því víða við í greininni og ræðir til dæmis við  Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, um hvort það sé rétt að Íslendingar séu hamingjusamasta þjóð í heimi. Segir Vigdís meðal annars að Íslendingar myndu að minnsta kosti ekki viðurkenna neitt annað en að þeir væru hamingjusamir. Það væri andstætt eðli Íslendings að segja að hann væri óhamingjusamur.

Sigríður hafði nokkra daga til verksins en að því loknu fór greinin í þýðingu því hún skrifaði á ensku. Greinin birtist svo á ítölsku síðasta föstudag, mánuði eftir að hún lauk við hana.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem grein eftir Sigríði birtist í erlendum miðlum því í vor birtist eftir hana grein í International Herald Tribune um Ísland. Grein þessari var slegið upp í ítalska blaðinu Corriere della Sera og fannst Sigríði líklegt að L’Espresso hefði rekist á nafn hennar þar. Einnig hefur hún skrifað fyrir World Food Program, matvælaáætlun Sameinuðu Þjóðanna, og var sú grein þýdd á japönsku.

Skyldi Sigríður ætla að hasla sér völl á þessum vettvangi? „Ísland virðist vera vinsælt þessa dagana svo það eru kannski möguleikar fyrir íslenska blaðamenn að næla sér í verkefni erlendis. Ég tek þessu samt öllu með ró og stefni ekki á að leggja þetta fyrir mig sem aðalstarf. Hins vegar er gaman að að kanna málin aðeins,“ segir Sigríður að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert