Ekki sama hver sveppurinn er

mbl.is/Halldór Kolbeins

Búist er við mikið af sveppum eftir rigningar á næstu vikum. Sveppatínslufólki fer fjölgandi og sömuleiðis þeim tegundum sem hér vaxa. Til að koma til móts við fræðsluþarfir hefur Skógrækt ríkisins gefið út bækling um sveppatínslu en bækur um efnið eru illfáanlegar í búðum.

Sveppir eru nú þegar farnir að sjást um allt land en þó í litlu magni enn sem komið er. Bestu vaxtarskilyrði sveppa eru í hlýju og raka, og segjast skógarverðir Skógræktar ríkisins nú bíða rigningarinnar svo sveppirnir nái sér vel á strik. Búast má við miklum sveppavexti eftir rigningar á næstu vikum og því er gott að fara að huga að sveppatínslu. Þetta má lesa á vef Skógræktar ríkisins.

Samkvæmt vefnum fer áhugi á sveppatínslu sífellt vaxandi, auk þess sem sveppategundum hér á landi fjölgar og útbreiðsla þeirra eykst.

Í skógum víða um land sé nú að finna fjölda sveppa frá miðju sumri og fram á haust.

Skógræktin segir að við sveppatínslu sé að mörgu að hyggja. Þó það sé bæði skemmtilegt og nytsamlegt að tína sveppi til matar, þá sé nauðsynlegt að læra að þekkja þá sveppi sem ætir eru, matsveppina.

Einnig þurfi að huga að ýmsu hvað varðar hreinsun og geymslu sveppanna svo þeir njóti sín sem best við matargerð.

Því miður eru handbækur um sveppi nú illfáanlegar í bókabúðum og því hefur Skógrækt ríkisins tekið saman stuttan leiðbeiningarbækling sem áhugafólk um sveppatínslu getur stuðst við. Honum er hlaðið niður og hann svo hægt að prenta út og taka með sér í sveppaferðir.

Vefur Skógræktar ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert