Sæstrengur lagður í friðlandi

Surtsey
Surtsey mynd/LHG

Ljósleiðarasæstrengur á vegum Farice var lagður á 2,5 kílómetra kafla í gegnum friðalandið við Surtsey í síðustu viku. Umhverfisstofnun veitti leyfi fyrir framkvæmdinni 4. ágúst síðastliðinn.

Surtsey var tekin inn á heimsminjaskrá UNESCO 8. júlí síðastliðinn. Aðeins þremur dögum síðar, hinn 11. júlí, sótti Farice um leyfi til þess að leggja strenginn í gegnum friðlandið. Leyfið var síðan veitt 4. ágúst eins og fyrr segir og nær til lagningar tveggja sæstrengja. Annars vegar er um að ræða ljósleiðarasæstrenginn DANICE sem á að liggja á milli Íslands og Danmerkur. Hinn strengurinn er á vegum TeleGreenland og mun liggja á milli Íslands og Grænlands og þaðan áfram til Nýfundnalands. Það er sá síðarnefndi sem var lagður í gegnum friðlandið í síðustu viku.

„Þetta fór í ferli hér hjá okkur og það var gefið leyfi,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun. Hann segir að sækja þurfi um leyfi fyrir öllum framkvæmdum á friðlýstum svæðum hjá Umhverfisstofnun. Hjalti segir aðspurður að óljóst sé hvaða áhrif framkvæmdirnar hafi á stöðu Surtseyjar á heimsminjaskrá. „Þau eru með erindi hjá sér en hafa ekki tekið afstöðu,“ segir Hjalti aðspurður hvort skrifstofu heimsminjaskrár hafi verið tilkynnt um framkvæmdirnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert