Hótelgistingin á kostnað skattgreiðenda

Hótel Kríunes
Hótel Kríunes Sverrir Vilhelmsson

Flestir nefndarmenn samgöngunefndar Alþingis gistu á hótelinu Kríunesi við Elliðavatn í Reykjavík á kostnað skattgreiðenda í ferð sinni um höfuðborgarsvæðið í síðustu viku. Þetta gerðu bæði þingmenn höfuðborgarsvæðisins og þingmenn af landsbyggðinni sem fá jafnan sérstakan styrk til að halda einnig heimili í Reykjavík ef þeir búa úti á landi.

Meginregla Alþingis er sú að þingið greiðir ekki fyrir kostnað við gistingu þingmanna í eigin kjördæmi né í Reykjavík nema um sé að ræða skipulagða ferð. Slíkar ferðir eru oftast farnar út á land.

Hótelkostnaðurinn mun hafa verið 12 þúsund krónur á mann, eða 72.000 krónur alls fyrir þá 6 þingmenn sem gistu samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis. Auk þess greiddi Alþingi 96 þúsund króna matarreikning fyrir 13 fundarmenn sem snæddu kvöldverð í Kríunesi.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður samgöngunefndar Alþingis, segir að þar sem um tveggja daga ferð var að ræða með fundum kvölds og morgna hafi nefndin talið heppilegast að gista á hótelinu á milli funda.

Þeir þingmenn sem nýttu sér gistinguna voru Árni Johnsen, Árni Þór Sigurðsson, Guðjón A. Kristjánsson, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson og Ólöf Nordal. Ármann Kr. Ólafsson tók ekki þátt í ferðinni og Steinunn Valdís og Guðni Ágústsson gistu heima hjá sér. „Ég hefði gist undir öllum venjulegum kringumstæðum og Guðni líka, það bara háttaði þannig til hjá okkur að við urðum að fara heim til okkar um kvöldið," útskýrir Steinunn Valdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert