Forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu

Geir H. Haarde flytur skýrslu sína um efnahagsmál á Alþingi …
Geir H. Haarde flytur skýrslu sína um efnahagsmál á Alþingi í dag. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að mikilvægt væri að allir sýni skilning á því ástandi, sem nú er vegna andstreymis í efnahagsmálum. Þá sagði hann að það væri forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar, að tryggja að hér verði eftir sem áður full atvinna fyrir vinnufúsar hendur.

Hann sagði, að margt bendi til þess að frá og með haustinu gangi verðbólgan niður á nýjan leik, ef ekki verða óvænt áföll. Við þær aðstæður gætu vextir lækkað hratt og fyrirtækin í landinu á ný ráðið fleira fólk til starfa.

Þá sagði Geir, að ríkisstjórnin muni leita samráðs og hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og fleiri til að ná sem bestri samstöðu í baráttunni gegn verðbólgunni. „Full ástæða er til að hvetja heimilin í landinu til að sýna aðhaldssemi og það rétt er að halda því til haga að í verðbólgu er fátt skynsamlegra en að borga niður skuldir og leggja fé til hliðar," sagði Geir.

Hann sagði, að þótt þrenginga hafi orðið vart á vinnumarkaði upp á síðkastið mætti það ekki gleymast, að langflestir Íslendingar geti gengið að fullri atvinnu með vissu.

„Verið vissir um að atvinnuleysi verður hrundið með því að auka verðmætasköpun í landinu. Við munum aldrei sætta okkur við skerta möguleika fólks til að framfleyta fjölskyldum sínum og það er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja að hér verði eftir sem áður full atvinna fyrir vinnufúsar hendur," sagði Geir.

Hann bætti við, að það væri brýnt verkefni að auka verðmætasköpun í landinu með aukinni framleiðslugetu. „Við verðum að nýta það sem okkur sem þjóð er gefið. Ekkert verður til úr engu. Allir þjóðir heims kappkosta að nýta auðlindir sínar á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt. Við getum ekki verið undantekning þar á. Það eru breyttir tímar í heiminum og við erum svo lánsöm að eiga dýrmætar orkuauðlindir. Með aukinni tækni og þekkingu ber okkur að nýta þær auðlindir á 6
arðbæran hátt en jafnframt umhverfislega ábyrgan og sjálfbæran hátt. Besta leiðin til að vinna okkur út úr tímabundnum erfiðleikum er að framleiða, framleiða og aftur framleiða.

Auðlindir eru lítils virði nema þær séu nýttar á hagkvæman máta og engin þjóð hefur efni á að vannýta auðlindir sínar. Besta andsvar okkar við núverandi þrengingum er að virkja auðlindirnar í auknum mæli með ábyrgum og sjálfbærum hætti, jarðhita jafnt sem vatnsafl. Það eru hagsmunir almennings í landinu að stjórnvöld liðki fyrir arðbærri nýtingu orkuauðlindanna," sagði Geir H. Haarde. 

mbl.is