Vilja láta gera styttu af Tómasi

Brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni í Austurstræti á síðustu öld.
Brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni í Austurstræti á síðustu öld.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu til á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, að gerð verði myndastytta af Tómasi Guðmundssyni, skáldi, og henni verði komið fyrir á áberandi stað í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og F-lista samþykkti  og fulltrúar Samfylkingar og VG sátu hjá. 

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að í ljósi framlags Tómasar Guðmundssonar til menningarlífs Reykjavíkur og þess heiðursess, sem hann skipar í hugum borgarbúa, fari vel á því að gerð sé stytta af Tómasi og henni komið fyrir á áberandi stað í hjarta Reykjavíkur. Vel færi á því að slíkri styttu yrði valinn staður í Hljómskálagarðinum í námunda við stytturnar af Jónasi Hallgrímssyni og Bertel Thorvaldsen. Ýmsir aðrir staðir gætu þó komið til greina, t.d. á Landakotstúninu, við gönguleiðir í Vesturbænum eða nálægt Reykjavíkurhöfn.

Borgaryfirvöld létu gera brjóstmynd af Tómasi á áttunda áratug síðustu aldar og var henni komið fyrir í Austurstræti við Reykjavíkurapótek. Á tíunda áratugnum var brjóstmyndin tekin niður vegna framkvæmda í Austurstræti en hún hafði þá orðið fyrir hnjaski af mannavöldum þar sem hún stóð nokkuð berskjölduð. Um árabil var brjóstmyndin höfð í geymslu eh henni var síðan komið fyrir í Borgarbókasafni Reykjavíkur og hefur verið  þar síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina