Tugir lögreglumanna á göturnar?

mbl.is/Júlíus

Með endurskipulagningu má fjölga lögreglumönnum á götum höfuðborgarsvæðisins um tugi, að sögn Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Í tillögum hans felst að LRH fái sérsveitina og fjarskiptamiðstöðina til sín.

Stefán segir ekkert formlegt samkomulag á milli LRH og ríkislögreglustjóra um nýtingu sérsveitarmanna.

„Drjúgur tími fer í þjálfun þeirra og æfingar, en utan þess tíma fáum við upplýsingar um að þeir sinni verkefnum, sem við vitum ekki hver eru, og séu því ekki tiltækir í löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Það er í ósamræmi við upplegg dómsmálaráðherra þegar kynnt var breytt skipulag sérsveitarinnar árið 2004. Sérsveitin nýtist að einhverju marki á höfuðborgarsvæðinu en ég tel mikla þörf á að nýta betur þessa öflugu og góðu lögreglumenn."

Stefán er einnig með hugmyndir um að fjarskiptamiðstöðin færist frá ríkislögreglustjóra til LRH. „Þar ganga 20 lögreglumenn vaktir og við viljum breyta því fyrirkomulagi með meiri samvinnu við Neyðarlínuna. Neyðarverðir kalla nú þegar út sjúkrabíla og slökkvibíla og við viljum að þeir sinni lögregluútköllum líka. Þá getum við fjölgað umtalsvert lögreglumönnum á götunum."

Stefán er meðvitaður um þau sjónarmið sumra að lögreglumenn eigi að sinna lögregluútköllum en segir fyrirkomulagið ganga vel í Finnlandi. Þá bæti það öryggi almennings að hraða lögregluútköllum. Í stað þess að neyðarverðir sendi símtalið áfram til lögreglu fari boðin milliliðalaust í bílana.

„Boð um að fólk sé í neyð þurfa að komast beint til þeirra sem eru næstir vettvangi til að tryggja eins skjót viðbrögð og kostur er."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina