Farið inn í brennandi hús

Frá Alþingi daginn sem neyðarlögin voru sett.
Frá Alþingi daginn sem neyðarlögin voru sett. mbl.is/Golli

Fimmtíu þingmenn af 63 greiddu atkvæði með lögum um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði hinn 6. október sl. Lögum sem í daglegu tali hafa verið nefnd neyðarlög. Í kjölfar greiðsluerfiðleika þriggja stærstu bankanna var enginn annar kostur í stöðunni að mati löggjafans. Um er að ræða róttækustu aðgerð í efnahagsmálum sem gripið hefur verið til í sögu þjóðarinnar.

Þótt meirihluti Alþingis hafi samþykkt lögin og þau þannig fengið lýðræðislega afgreiðslu, má færa rök fyrir því að þau gangi í berhögg við ýmsar meginreglur, sem gilt hafa í lýðræðisþjóðfélaginu Íslandi. Hér má nefna jafnræði, því innstæðueigendum er hyglað umfram aðra kröfuhafa bankanna, eignarrétt því eignaupptaka átti sér stað og innstæðum var fengin aukin rétthæð með afturvirkum hætti. Hér má einnig nefna málskots- og andmælarétt því stjórnsýslulögin gilda ekki um ákvarðanir skilanefnda bankanna og Fjármálaeftirlitsins.

Umtalsverður kostnaður þjóðfélagsins

Í athugasemdum með frumvarpi til neyðarlaganna kemur fram að stjórnvöld víða um heim hefðu „neyðst“ til að grípa til ráðstafana til að tryggja virkni fjármálakerfisins og kostnaður þjóðfélagsins af „gjaldþroti kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja yrði umtalsverður.“ Með öðrum orðum réttlæta neyðarsjónarmið lögin. Það hafa verið sett neyðarlög í Bandaríkjunum og hluti af löggjöfinni sem Bretar notuðu, þegar þeir fóru inn í Landsbankann og Kaupþing [The banking special provisions act], eru lög sem réttlætt eru með svipuðum hætti. Hér er ekki um að ræða lögin gegn hryðjuverkum heldur neyðarlöggjöf um fjármálastofnanir, en þeim var beitt saman.

Færa má rök fyrir því að ríkið beiti eignarnámi í skjóli laganna, með því að taka yfir eignir bankanna og færa þá yfir í nýja. Hins vegar er það svo að lagaheimild, almenningsþörf og fullt verð þarf að koma til svo eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sé uppfyllt. Það má hins vegar ekki gleyma því að stjórnir bankanna óskuðu sjálfar eftir þessari meðferð eftir setningu laganna. Svo er spurning um rétt smærri hluthafa, sem áttu ekki í fulltrúa í stjórn, ekkert liggur fyrir um að samþykki þeirra hafi legið fyrir.

Ef við gefum okkur að almenningsþörf hafi verið fyrir hendi og við höfum lagaheimild, þá er álitamál hvort eigendur bankanna fái „fullt verð“ fyrir þau verðmæti sem tekin voru eignarnámi. Og við hvaða verð á að miða? Sumir hafa sagt að bankarnir hafi hrunið og verðmæti þeirra eftir því. Um þessar mundir eru skilanefndirnar að meta verðmæti bankanna. Þær hafa heimildir til þess að selja eignir bankanna, búta þær niður og meta eignir umfram skuldir. Verðmæti liggur því ekki fyrir.

Þeir lögmenn sem rætt var við voru sammála um að hér reyndi á meginreglur um neyðarrétt, álitaefni tengd afturvirkni laga og eignarréttarvernd. Neyð víki lögum og íslenska ríkið muni halda sér við það sjónarmið í þeim málaferlum sem koma í kjölfarið.

„Það verða riftunarmál hægri, vinstri og það verða skaðabótamál frá erlendum kröfuhöfum og það verða skaðabótamál frá hluthöfum,“ segir lögmaður sem er sérfræðingur í félaga- og kauphallarrétti. Hugsanlega þarf að athuga vel réttarstöðu þeirra sem áttu viðskipti með hlutabréf í Glitni eftir að ríkið ákvað að kaupa 75% hlut í bankanum.

Tvær atburðarásir

Ef tekið er einfalt dæmi má einstaklingur brjótast inn í hús í skjóli neyðarréttar ef það er kviknaður eldur til þess að bjarga verðmætum. Ríkið þarf væntanlega að sanna að tjón hafi átt sér stað eða verið yfirvofandi. Í þessu samhengi þarf að setja upp tvær atburðarásir. Annars vegar þá atburðarás sem hefur átt sér stað og svo ímyndaða atburðarás um það sem gerst hefði. Finna þarf einhvers konar núllpunkt milli þessara tveggja atburðarása, sem er mjög krefjandi verkefni. Bankarnir voru á leið í greiðslustöðvun. Þeir hefðu hugsanlega orðið gjaldþrota og útibúum lokað.

Forgangskröfur innlánseigenda

Ef lögin hefðu ekki verið sett og ríkið hefði látið gjaldþrot bankanna afskiptalaust, þá hefðu innstæðueigendur aðeins verið tryggðir fyrir tæpum þrem milljónum króna. Í lögunum kemur fram að innstæðukröfur séu forgangskröfur. Velta má fyrir sér hver sé réttarstaða þeirra kröfuhafa sem áttu kröfur sem stofnuðust áður en innstæðukrafa stofnaðist, t.d. lánardrottnar bankanna og peningamarkaðssjóðseigendur. Er verið að beita lögum með afturvirkum hætti í þessu samhengi? „Þarna reynir á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er verið að hygla sumum kröfuhöfum umfram aðra. Svo þarf að meta hvort þetta gildir jafnt yfir alla, en það liggur ekki fyrir á þessari stundu,“ segir stjórnarmaður í skilanefnd eins bankanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »