Guðni: Bjarni axlar ábyrgð og fer

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sverrir

„Bjarna Harðarsyni urðu á mjög mikil mistök og óverjandi. Þannig að hann hefur nú tekið afleiðingum gjörða sinna og sagt sig frá þingmennsku,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.

„Eins og ég hef margsagt sem formaður flokksins þá verður að sýna stóru málunum drenglyndi og leyfa okkur að vera ósammála um þau og grandskoða hin stærstu mál. Bjarni hefur verið einn af þeim mönnum sem fremstir ganga. Hann er með stífar skoðanir og vill Ísland ekki í Evrópusambandið,“ segir Guðni. Bjarni hafi farið fyrir hópi manna sömu skoðunar og verið vígdjarfur og óvæginn. Honum hafi orðið á mistök sem engin leið sé að verja og séu í raun óskiljanleg af hans hálfu.

Spurður um stöðu sína þegar Bjarni fer, svarar Guðni. „Þetta snýr ekki að minni stöðu. Ég er formaður flokksins og hef hvergi að þessum málum komið. Ég hef verið að reyna, eins og allir vita að sætta áleitin sjónarmið í þessum flokki og horfi fram á veginn.“

Helga Sigrún Harðardóttir tekur við þingmennsku af Bjarna. „Þarna kemur öflug baráttukona af Suðurnesjum. Hún nær örugglega fljótt sterkum tökum á þingmannsstarfinu enda hefur hún sterkar skoðanir í pólitík,“ segir Guðni.

Hann segist ekki óttast að andrúmsloftið verði blandið á miðstjórnarfundi flokksins um helgina. „Það verður gott,“ segir hann og bætir við. „Það er mikilvægt þegar að svona gerist að menn virði það að Bjarni Harðarson hefur viðurkennt brot sitt og gerir það sem sjaldgæft er í íslenskri pólitík: Hann axlar sína ábyrgð og fer. Honum fylgja góðar óskir á nýjan vettvang og ég virði þessa niðurstöðu hans. Hún er til sátta gerð af hans hálfu um leið og hann játar mistök sín.“

Bjarni sendi óvart öllum fjölmiðlum landsins bréf þar sem hann bað aðstoðarmann sinn að senda bréf tveggja skagfirskra bænda, sem gagnrýna Valgerði Sverrisdóttur, nafnlaust á fjölmiðlana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert