500 fermetra skóli seldur á 2,1 milljón

mynd/strandir.is

Tilboð hafa verið opnuð hjá Ríkiskaupum í Broddanesskóla, sem stendur við utanverðan Kollafjörð á Ströndum. Hæsta tilboð sem barst var frá Eysteini Einarssyni að upphæð 2,1 milljón. Er þetta langt undir matsverði, en verðmat frá fasteignasölunni Fasteignamiðstöðin hljóðaði upp á 18 milljónir króna.

Broddanesskóli var tekinn í notkun árið 1978 og starfaði til 2004. Hann er hannaður af dr. Magga Jónssyni arkitekt. Húsið er um 500 fermetrar að stærð, tæplega 330 fermetra skólahúsnæði og 173 fm. íbúð, samkvæmt Landskrá fasteigna. Fasteignamat er samtals rúmar 13 milljónir, en brunabótamat 78,2 milljónir.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða í sumar að fela menntamálaráðuneytinu að láta auglýsa skólann til sölu hjá Ríkiskaupum, en Strandabyggð á skólahúsið ásamt ríkinu.

Sveitarstjórnin samþykkti á fundi í vikunni að gengið yrði til viðræðna við hæstbjóðanda. Að sögn Ásdísar Leifsdóttur sveitarstjóra, þótti tilboðið í lægri kantinum. Á hitt væri að líta, að dýrt væri að kynda mannlaust húsið. Þá væri orðin þörf á viðhaldi og ljóst væri að sveitarsjóður væri ekki í stakk búinn til að fara út í dýrar framkvæmdir á næstunni vegna efnahagsástandsins í landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert