Frumvarpið vottur um uppgjöf

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, ASÍ, gagnrýnir gjaldeyrisfrumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega. Þar sé á ferð dæmalaust frumvarp sem líti út fyrir að vera vottur um uppgjöf.

„Við eigum eftir að fara betur í saumana á frumvarpinu, bæði innan okkar raða og innan okkar forystu. Mér líst mjög illa á þetta. Ég óttast að með þessu sé verið að taka úr höndum okkar þá von sem við bárum í brjósti um að krónan gæti farið að styrkjast á næsta ári, sem þá myndi leiða til þess að verðbólgan gæti farið hratt niður. Ég óttast að svona hömlur séu hreinlega uppgjöf og muni leiða til þess að gengi krónunnar verði áfram veikt. Það þýðir að við erum ekki bara að festa verðbólguna í sessi, við erum líka að halda henni á mjög háu stigi. Þannig að ég hef af þessu talsverðar áhyggjur.“

Gylfi segir ASÍ hafa heimildir fyrir því að frumvarpið hefði verið lagt fram að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Okkur hjá ASÍ var tjáð á fundi viðskiptanefndar Alþingis í gær að þetta væri gert að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að í vikunni hefðu komið hingað fulltrúa hans. Ég kannast ekki við eftir að hafa átt samráð við fulltrúa sjóðsins í október að það væri gerð krafa um svona hömlur. Við lásum ekki annað út úr yfirlýsingunni sem er til meðferðar á Alþingi en að það ætti að draga úr hömlum. Okkur var tjáð það í gær að þetta væru kröfur sem hefðu komið fram núna. Ég hef ekki tækifæri til að ræða það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, enda hefur okkur ekki verið boðið til þeirra viðræðna. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef talsverðar efasemdir um að sjóðurinn hafi lagt fram þessar kröfur, því þetta er í andstöðu við yfirlýsingu hans um þróun gjaldeyrismarkaða.“

Gylfi segir að ef rétt reynist bendi kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að hann hafi ekki trú á aðgerðum stjórnvalda.

„Ef sjóðurinn hefur hins vegar lagt þessa kröfu fram er það vegna þess að hann hefur ekki trú á þeirri áætlun sem nú er uppi um viðreisn efnahagslífsins. Hann treystir ekki á að Seðlabankinn og ríkið séu að gera þær ráðstafanir sem þarf til að hægt verði að fleyta krónunni. Þannig að aftur komum við að því að það er tilfinnanlegur skortur á að ríkisstjórninni og Seðlabankanum takist að skapa nægjanlega trúverðugleika í kringum úrlausn þessara verkefna.“

mbl.is