Gamla Baugsmálið enn á ferðinni

Höfuðstöðvar Baugs Group við Túngötu.
Höfuðstöðvar Baugs Group við Túngötu. mbl.is/Árni Sæberg

Baugur Group segir í yfirlýsingu, að gamla Baugsmálið, sem hófst með húsleit hjá Baugi í ágúst 2002, sé enn á ferðinni í ákæru setts ríkislögreglustjóra vegna meintra skattalagabrota.

„Ákærandinn í þetta sinn er sami maðurinn og stýrði húsleitinni. Þetta er í þriðja sinn sem gefin er út ákæra í þessu sama máli. Það er gert þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi í dómi fundið berum orðum að því við ákæruvaldið að sá tími sem leið frá upphafi rannsóknarinnar í ágúst 2002 og þar til ákæra númer tvö var gefin út í mars 2006 hafi verið allt of langur. Ákæruvaldið virðist ekkert mark taka á slíkum aðfinnslum æðsta dómstóls landsins en velur að ákæra rétt einu sinni í málinu þótt nú sé komið á sjöunda ár frá því rannsókn málsins hófst.  Þetta er gert þótt Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í gær  vísað frá dómi ákæru frá þessum sama ákæranda vegna annmarka á málsmeðferð sem enn frekar eiga við um nýjustu ákæruna.

Ákæran er gegn Baugi, Gaumi, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu Jóhannesdóttur og Tryggva Jónssyni. Þessir einstaklingar hafa mátt eyða drjúgum hluta síðustu sjö ára til þess að verja hendur sínar hjá ríkislögreglustjóra og fyrir íslenskum dómstólum.

Persónuleg skattamál ákærðu sem og skattamál Baugs og Gaums sem ákært er fyrir hafa hlotið endanlega niðurstöðu hjá skattyfirvöldum.   Þess má geta að eftir niðurstöðu yfirskattanefndar í máli Jóns Ásgeirs, Tryggva og Gaums fengu þessir aðilar tugi milljóna króna endurgreiddar frá ríkissjóði.

Ákærðu telja að með ákærunni séu þverbrotnar á þeim grundvallarreglur um mannréttindi með því að ákæra margsinnis í sama máli og draga mál svo lengi að óafsakanlegt sé."

mbl.is

Bloggað um fréttina