Drekka minna - skjóta meira

Búist er við að flugeldasala verði mun minni í ár en annars. Minna var flutt til landsins, hluti af flugeldafarmi björgunarsveitanna varð eftir á bryggjunni í Shanghai vegna gengisþróunar og minni söluaðilar áttu einnig margir hverjir í erfiðleikum með að fá bankafyrirgreiðslu.

Árið í fyrra sló öll met en þá var þjóðin enn innblásin af góðærinu og sprengikrafturinn eftir því.  Flugeldasalan hefur farið hægt af stað þessi áramót þrátt fyrir góða veðurspá. Enn getur þó allt gerst enda fer aðeins lítið brot af flugeldasölunni fram fyrstu tvo dagana.Hörður Harðarson sveitarforingi hjá Hjálparsveit skáta hvetur fólk til að skjóta fleiri flugeldum en sleppa áfenginu. Það bæti samveruna og styrki gott málefni. Hann minnir á að björgunarsveitirnar geti ekki hækkað gjaldskrá sína til að mæta erfiðleikum, þær vinni ókeypis.

Nú hefur verið fitjað upp á þeirri nýbreytni að bjóða fólki upp á myndir af íslenskum útrásarvíkingum, bankastjórum eða stjórnmálamönnum til að lima á raketturnar. Hörður Harðarson segir að áður hafi verið gerð tilraun til að selja fólki rakettur með íslenskum stjórnmálamönnum. Þá hafi fólk keypt sína uppáhalds stjórnmálamenn ýmist til að skjóta þeim upp á stjörnuhimininn eða njóta þess að sjá þá fuðra upp. Hann á síður von á því að fólk kaupi sína uppáhaldsútrásarvíkinga til að skjóta þeim upp á stjörnuhimininn, nema þá í mjög þröngum hópi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina