Blómstrandi barnalán á Djúpavogi

Það er líf og fjör í barnabænum Djúpavogi.
Það er líf og fjör í barnabænum Djúpavogi. mbl.is/Andrés Skúlason

Árið 2008 fæddust ellefu nýir Djúpavogsbúar en í hreppnum búa innan við 500 manns. Þegar hafa átta konur á staðnum staðfest að þær beri barn undir belti og þar sem árið er aðeins nýhafið er tími til að bæta um betur.

Sökum þessa barnaláns er leikskólinn á Djúpavogi nær fullbókaður. Aðeins nokkur ár eru síðan leikskólinn var reistur og töldu þá nokkrir hann vera of stóran.

Fækkun vegna góðæris

Í sveitarfélaginu öllu fækkaði íbúum um 12% á árunum 1997-2007 og má það að einhverju leyti skýra með góðærinu sem laðaði fólk úr litlum bæjarfélögum. Í þéttbýlinu á Djúpavogi fækkaði fólki um 5,9% á sama árabili en mun meiri fækkun varð í flestum öðrum þéttbýliskjörnum á landinu af sambærilegri stærð og Djúpivogur. Í fyrra varð töluverður viðsnúningur og fjölgaði þá mest á Djúpavogi af öllum sveitarfélögum á Austurlandi en nokkur fækkun varð á flestum öðrum svæðum í fjórðungnum sama ár.

Íbúar á Djúpavogi segja að ekki séu um samantekin ráð að ræða en segja megi að ákveðin samstaða sé um að fjölga í samfélaginu og að auki séu þeir allir mikið fyrir börn og vilji leggja sitt af mörkum til samfélagsins í þessum efnum.

Á laugardögum mæta foreldrar, sem og verðandi foreldrar, í leikjatíma í Íþróttamiðstöðina á Djúpavogi og leika við börnin. Þessir tímar eru vel sóttir og nýta foreldrarnir þessa samverustund gjarnan einnig til að spjalla hverjir við aðra og bera saman bækur sínar. Á eftir skellir hópurinn sér gjarnan í sundlaugina og slakar á saman. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert