„Ekki farin að finna til með honum ennþá“

„Ég er ekki farin að finna til með honum ennþá. Ég tel hann heppinn að hafa veikst því nú mun fólk ekki þjarma að honum,“ hefur AP fréttastofan eftir einum mótmælanda í Reykjavík dag, sem þannig kemst að orði um Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Fréttaritari AP ræðir við nokkra mótmælendur í hópi þeirra sem vilja ákveðnari aðgerðir í stað þess að bíða fram í maí eftir nýrri ríkisstjórn.

„Hann hefði átt að biðjast afsökunar og segja af sér,“ er haft eftir Guðrúnu Tryggvadóttir, sem titluð er ritstjóri vefsíðu. „Ég er ekki farin að finna til með honum ennþá. Ég tel hann heppinn að hafa veikst því nú mun fólk ekki þjarma að honum. Ég vil nýja stjórnarskrá, og síðan samkeppni um það hvernig nýja Ísland ætti að vera.“

Aktívistinn Gunnar Hinriksson segir við AP að Íslendingar muni sitja uppi með sama tóbakið þar til eftir kosningar. „Leiðtogar okkar eru sjúkir og þjóðin líka,“ segir hann í samtali við fréttaritara AP. 

Óttar Norðfjörð, rithöfundur, var einn mótmælendanna sem AP ræddi við í dag. Hann telur útilokað að ríkisstjórnin geti starfað almennilega á næstu mánuðum meðan kosninga er beðið.

„Hvernig getur ríkisstjórnin starfað eðlilega þegar báðir formennirnir eru veikir?“ er haft eftir honum. „Þetta er að verða eins og kvikmynd eftir Woody Allen."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert