Fréttaskýring: Er tíminn réttur fyrir nýtt kvennaframboð?

Neyðarstjórn kvenna hefur verið sýnileg í mótmælum á Austurvelli síðustu …
Neyðarstjórn kvenna hefur verið sýnileg í mótmælum á Austurvelli síðustu vikurnar. Nú hefur stjórnin boðið til stofnfundar nýrrar stjórnmálahreyfingar kvenna í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Neyðarstjórn kvenna hefur í kvöld boðað til stofnfund nýrrar stjórnmálahreyfingar kvenna sem áformar að bjóða sig fram í komandi alþingiskosningum. Fundurinn verður haldinn að Hallveigarstöðum á Túngötu 14 og byrjar kl. 20.

Líkt og gilti um Kvennalistann á sínum tíma er hugmyndin sú að hér verði einvörðungu um kvennaframboð að ræða. Margir spyrja sig vafalítið hvort sérstakt kvennaframboð sé nauðsynlegt nú á tímum til þess að koma baráttumálum kvenna að og stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu eða hvort hér sé um tímaskekkju að ræða þegar ljóst er allt útlit virðist á því að fyrsta konan setjist senn í stól forsætisráðherra og allar líkur virðast á því að kynjahlutfall milli ráðherra í næstu ríkisstjórn verði jafnt.

Í samtölum blaðamanns við nokkra femínista varð ljóst að mjög skiptar skoðanir eru í þeirra röðum á því hvort kvennaframboð feli í sér fleiri kosti eða galla. Sumar nefndu að í því upplausnarástandi sem nú ríki sé einmitt góður tími til þess að breyta samfélaginu og því kjörið að bjóða upp á kvennaframboð.

Allar voru þær sammála um að mikilvægt væri að öll kvennahreyfingin stæði að baki slíku framboði af að yrði, en það sé ekki reyndin í dag. Einnig var bent á að það hversu vel til tækist með kvennaframboð ylti vitaskuld á því hversu margar öflugar konur gæfu kost á sér í slíku framboði.

Er kynið nógu sterkur samnefnari?
Óneitanlega er ein þeirra spurninga sem fyrst skjóta upp kollinum sú hvort kvennaframboð hefði sama slagkraft í dag og það hafði í upphafi níunda áratug síðustu aldar þar sem staða kvenna í dag sé gjörólík því sem hún var þá.

Þannig má nefna að á árunum 1922-71 átti að jafnaði aðeins ein til tvær konur sæti á Alþingi og á árunum 1971-83 voru þingkonur aðeins þrjár. Á móti má benda að þó konum á þingi hafi fjölgað sé enn nokkuð í land að hlutfall kynja á þingi verði jafnt og þar séu Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna.

Einn viðmælanda Morgunblaðsins velti fyrir sér hvernig myndi ganga að sameina konur í kvennaframboði. „Þó kynið sé auðvitað ákveðinn samnefnari þá eru konur jafn margar og þær eru mismunandi. Það er því spurning hvort kvennaframboð geti rúmað slíkt, enda vandséð að konur á vinstri væng stjórnmálanna annars vegar og konur á hægri væng stjórnmálanna hins vegar geti orðið sammála um áherslur og útfærsluleiðir,“ sagði femínisti sem mörg sl. ár hefur verið virkur í jafnréttisbaráttunni.

Sagðist viðkomandi frekar vilja sjá öfluga kvennahreyfingu sem gæti veitt kröftugt aðhald jafnframt því að styðja við bakið á þeim konum sem nú þegar væri starfandi í stjórnmálaflokkunum.

Felur sjálfkrafa í sér gagnrýni á starfandi flokka
Margir viðmælenda sögðust einmitt binda vonir við það að sérstakt kvennaframboð gæti virkjað konum til stjórnmálaþátttöku sem ekki hefðu haft áhuga á slíku starfi áður þar sem uppbygging og starf stjórnmálaflokka væri of karllægt og höfðaði því ekki jafnvel til kvenna.

Með kvennaframboði gætu konur tekið þátt í stjórnmálum á sínum forsendum, auk þess sem í sérstöku kvennaframboði fælist sterk gagnrýni á hina hefðbundnu flokka fyrir að hafa ekki sinnt konum sem skyldi innan flokkanna. Sagðist viðkomandi sannfærð um að kæmi til sérstaks kvennaframboðs myndi það frekar hafa jákvæð áhrif á aðra flokka en neikvæð, líkt og varð þegar Kvennalistinn sálugi kom fram á sínum tíma en þá brugðust flokkarnir við með því að gera konur sýnilegri á framboðslistum sínum.

Þessu sjónarmiði var annar viðmælandi ekki sammála og sagðist óttast að með tilkomu sérstaks kvennaframboðs væri frekar hætta á því að hinir hefðbundnu flokkar myndu fjarlægjast stefnu sína í jafnréttismálum þar sem þeir gætu bent á sérframboð jafnréttinu til stuðnings.

Benti viðkomandi á að konur hefði verið sýnilegar í forystu innan allra stjórnmálaflokkanna á umliðnum árum. Ef konur sem verið hefðu áberandi í núverandi stjórnmálaflokkum gengi til liðs við kvennaframboðið væri ákveðin hætta á því að margir myndu túlka það sem svo að þeim hefði mistekist vegferðin innan hinna flokkanna sem svo aftur gæti leitt til gagnrýni ekki aðeins á þær heldur einnig flokkanna sem þær störfuðu með áður.


Að mati eins viðmælanda Morgunblaðsins væri vænlegra til árangurs í jafnréttisbarátunni ef þær konur og femínistar, sem í dag starfa á vettvangi stjórnmálaflokkanna, tækju höndum saman og styddu baráttumál kvenna óháð flokkslínunni. Benti annar í því samhengi á að þetta hefði verið reynt í tengslum við vændisfrumvarpið á sínum tíma en án árangurs, þar sem krafan um að hver spilaði með sínu liði, þ.e. fylgdi sinni flokkslínu, væri svo rótgróin og sterk hérlendis að ógerningur væri að bregða þar út af.


mbl.is