Framsókn í sókn, Samfylking tapar fylgi

Miklar sveiflur mælast í fylgi við stjórnmálaflokkana í janúarmánuði
Miklar sveiflur mælast í fylgi við stjórnmálaflokkana í janúarmánuði mbl.is/Brynjar Gauti

Fylgi Framsóknarflokksins hefur aukist mikið milli mánaða og mælist flokkurinn nú með 15% stuðning kjósenda samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Þetta er sjö prósentustiga aukning frá því í desember. Fylgi Samfylkingar hefur hinsvegar minnkað um sex prósentustig á sama tíma og mælist nú 22%.

Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða samkvæmt Þjóðarpúlsinum. Vinstri hreyfingin - grænt framboð nýtur mests stuðnings kjósenda, eða 30% á meðan Sjálfstæðisflokkurinn mælist með rúmlega 24% fylgi. Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin mælast hvor fyrir sig með tæp 3%. Um 4% segjast ætla að kjósa önnur framboð en þau sem voru í boði í síðustu Alþingiskosningum.

Greinilegt er að landsfundur Framsóknarflokksins, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kosinn formaður, marki þáttaskil í fylgi við flokkinn því þá eykst það um níu prósentustig milli vikna. Fylgið dalaði síðan aftur í lokaviku mánaðarins.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins var nokkuð stöðugt framan af mánuðinum í 22-23% en eftir að tilkynnt var um stjórnarslit tók fylgið kipp í síðustu viku mánaðarins og mæltist fylgið rúm 31% vikuna 26.-29. janúar.

Fylgi Samfylkingar þróast með svipuðum hætti og Sjálfstæðisflokks, er nokkuð stöðugt fram að stjórnarslitum en tekur smá kipp eftir það. Fylgi Vinstri grænna er hinsvegar í hámarki í upphafi janúarmánaðar en lækkar eftir því sem líður á hann og fer þannig úr 36% í upphafi niður í 21% síðustu dagana.

Stuðningur við fráfarandi ríkisstjórn hefur aldrei mælst minni en í janúar frá upphafi samstarfsins. Aðeins 26% sögðust styðja stjórnina, sem er tíu prósentustigum minni stuðningur en í desember. Frá og með mánudeginum 26. janúar þegar upp úr slitnaði var ekki spurt um stuðning við ríkisstjórnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina