Frumvarp um stjórnlagaþing úr ríkisstjórn

mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp um skipan og verkefni stjórnlagaþings. Frumvarpið verður sent öllum þingflokkum til afgreiðslu.

Framsóknarmenn mæltu fyrir sínu frumvarpi um stjórnlagaþing á þriðjudag en framsóknarmenn settu það sem skilyrði fyrir að verja ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar falli.

Þá samþykkti ríkisstjórnin í morgun að leggja fram frumvarp um breytingar á stjórnarskránni, líkt og kveðið er á um í verkefnaskrá ríkisstjórnar. Þar er þrennt nefnt, kveðið verður á um auðlindir í þjóðareign, sett verður ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og aðferð við breytingar á stjórnarskrá með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Loks kom fram á ríkisstjórnarfundinum, að viðskiptaráðuneytið beinir nú þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að þau framlengi frystingu myntkörfulána, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til varanleg lausn verði fundin á þeim vanda sem hækkun myntkörfulána á húsnæði veldur heimilum í landinu. Tillaga viðskiptaráðherra þessa efnis var samþykkt í ríkisstjórn í morgun.

Samskonar tilmælum var beint til fjármálafyrirtækja í nóvember. Viðskiptaráðuneytið segir, að unnið sé að varanlegri lausn á þeim vanda sem hækkun myntkörfulána á húsnæði valdi heimilum í landinu og vindi þeirri vinnu ágætlega fram. 
-- 

mbl.is

Bloggað um fréttina