Hörður Torfason: „ólaunað og sjálfsprottið“ starf

Hörður Torfason að stýra einum af mótmælafundunum á Austurvelli.
Hörður Torfason að stýra einum af mótmælafundunum á Austurvelli. Ómar Óskarsson

Hörður Torfason segist í yfirlýsingu að hann vilji að marggefnu tilefni taka fram, að allt starf sitt við mótmælin á Austurvelli í vetur hafi verið ólaunað og sjálfsprottið. „Ég hef staðið fyrir friðsömum mótmælafundum þar síðan 11. október 2008 og geri enn. Tilefnið var og er mannréttindabrot á heilli þjóð. Þessu starfi hef ég sinnt af einlægri sannfæringu og heilindum,“segir Hörður.
 
„Þau undanfarin tæp 40 ár sem ég hef starfað sem listamaður hér á landi hefur starf mitt beinst að og fjallað um mannréttindi. Og ég fullyrði að sú barátta hefur skilað árangri á mörgum sviðum. Þetta hefur verið algjörlega ólaunað starf sem ég hef fjármagnað sjálfur með tónleikum og plötusölu.
 
Það er því aumur og dapurlegur áróður sem heyrist víða og jafnvel frá sumum þingmönnum úr ræðustól Alþingis og á bloggsíðum fyrrverandi ráðherra og lærisveina þeirra, að starf mitt sé fjármagnað af pólitískum flokki eða hagsmunasamtökum. Slíkar fullyrðingar eru úr lausu lofti gripnar og helber ósannindi. Þær eru settar fram í lágkúrulegum, pólitískum tilgangi í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga og grafa undan samtakamætti þjóðarinnar. Auk þess skaðar þessi rógburður mig sem einstakling og er þeim sem slíkt stunda til háborinnar skammar.
 
Ég undirstrika að frá 1971 hef ég starfað algjörlega einn og óháður sem listamaður með þá fullvissu og það viðhorf, að sýna verði jafnt veraldlegum sem andlegum yfirvöldum strangt aðhald,“ segir Hörður Torfason ennfremur í yfirlýsingu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina