Kaupþingsmálið vó þungt í kosningunni

Kristinn Örn Jóhannesson
Kristinn Örn Jóhannesson

„Ég átti von á því að sitjandi formaður myndi falla, en það var stór hópur líka í kringum L-listann. En ég er fyrst og fremst afskaplega þakklátur þeim stóra hóp sem hefur sýnt mér traust og stuðning,“ segir Kristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VR.

Kristinn hlaut örugga kosningu með 41,9% atvkæða, í öðru sæti var Lúðvík Lúðvíksson með 30% atkvæða en Gunnar Páll Pálsson fráfarandi formaður félagsins rak lestina með 28% greiddra atkvæða og hlaut því ekki endurkosningu eins og hann hafði sóst eftir.

„Ég held að augljóslega spili Kaupþingsmálið stærstu rulluna þar, en það má ekki gleyma því að VR er búið að gera margt gott, en þetta eru tengsl sem félagsmönnum fannst ekki heppilegt og hafa slitið á þau,“ segir Kristinn.

Alls kusu 6.735 félagsmenn í þessu fyrsta formannskjöri VR, en alls voru 25.095 manns á kjörskrá. Kosningaþátttaka er því um 27% og segist Kristinn viljað hafa sjá meiri þátttöku. „Eðlilega hefði ég gjarnan viljað sjá meiri þátttöku, en þetta er margfalt meiri þátttaka heldur en hefur verið t.d. í kosningum um allsherjarsamninga þannig að það ber kannski að skoða í því ljósi.“ 

Aðspurður um verkefnin sem bíða hans í nýju starfi vísar hann til efnahagsástandsins og þeirrar kreppu sem ríkir. Máli skipti að stjórnvöld, launþegahreyfingar og atvinnurekendur vinni saman að því að koma þjóðinni upp úr því.

„Það eru stærstu verkefnin augljóslega. Mér líst bara mjög vel á að takast á við þetta, þess vegna bauð ég mig nú fram. En það verða nú kannski meiri breytingar en maður átti von á í þessu kasti en það eru góðir starfsmenn hjá VR með mikla reynslu og ég hlakka bara til að vinna með öllu því góðu fólki sem er tilbúið að vinna fyrir félaga VR.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert