Stórhríð á Norðurlandi

Afar vetrarlegt er á landinu. Þessi mynd var tekin á …
Afar vetrarlegt er á landinu. Þessi mynd var tekin á Húsavík í gærkvöldi. mbl.is/Hafþór

Stórhríð er á norðanverðu landinu og er gert ráð fyrir því að svo verði áfram fram eftir degi á norðanverðu landinu. Ekkert ferðaveður er á svæðinu. Einnig er sums staðar varhugavert sunnantil vegna vindstrengja við fjöll.

Að sögn lögreglunnar á Vopnafirði hefur verið mikil ofankoma síðan í nótt og er því að mestu ófært núna og talsvert fok. Skólahald hefur verið fellt niður bæði í grunnskólum og leikskólum á Vopnafirði og Eskifirði vegna veðursins og biður lögreglan fólk um að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Engin óhöpp hafa enn orðið vegna veðursins og vonast lögregan á Vopnafirði til að það haldist þannig hafi fólk hægt um sig.

Samkvæmt veðurspánni er veðrið að ná hámarki sínu um þetta leyti en mun ganga niður þegar líður að hádegi þótt enn verði vindasamt fram eftir degi.

Á Austurlandi er nú afar hvasst og mældist vindur á fjallveginum Öxi m.a. 28 metrar á sekúndu fyrir stundu. Hvassviðri og snjókoma eru um landið norðvestanvert, en heldur hægari og skýjað með köflum eða léttskýjað syðra. Frost er 1 til 12 stig.

Seint í dag er gert ráð fyrir minnkandi norðanátt og að dragi úr ofankomu.

mbl.is

Bloggað um fréttina