Blöskrar hækkunin

„Það er bara þessi níunda stund sem hækkar,“ sagði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, við hóp foreldra sem söfnuðust saman til að mótmæla fyrirhugaðri hækkun leikskólagjalda í dag. Tillagan var samþykkt á fundi leikskólaráðs og nemur raunhækkunin á fyrsta hálftímanum 50%.

Fyrstu átta tímarnir verða óbreyttir frá því sem verið hefur og þá er Reykjavíkurborg að semja við dagforeldra um hækkanir.  

„Ég ákvað að efna til mótmælastöðu af því að mér blöskrar að Reykjavíkurborg ætli að grípa til þessara aðgerða, að hækka leikskólagjöldin. Þó að grunnþjónustan haldist þá munar okkur öll mjög mikið um oft þennan hálftíma klukkutíma í viðbót. Bara fyrir mig myndi það vera mjög erfitt að halda vinnu ef ég gæti ekki fengið þennan hálftíma til að komast til og frá vinnu,“ segir Sigrún Erla Sigurðardóttir, sem er tveggja barna móðir í fæðingarorlofi sem skipulagði mótmælin í dag.

Sigrún Erla segist ekki sjá tilganginn í því að ráðast á litla fólkið sem sé mjög skuldsett. „Ég myndi miklu heldur vilja borga 500 kall meira á mánuði í útsvar. Ég viðurkenni það alveg. Af því að þá færi fólkið, sem á meira, á stærri hús og tekur meira pláss í borginni, að borga fyrir þjónustu sem er búið að nota. En ég held að allir sem eigi meira séu alveg sáttir við það. Við verðum að hugsa um hvort annað.“

Þorbjörg Helga sagði að þetta væri ein af þeim leiðum til að tryggja grunnþjónustu í borginni. „Áfram eru leiksskólagjöld í Reykjavík lægst á landinu. Áfram erum við eina sveitarfélagið með 100% systkinaafslátt. Áfram erum við með sömu afslætti fyrir einstæða, öryrkja og námsmenn. Það breytist ekkert þessi niðurgreiðsla borgarinnar, 87-95% niðurgreiðsla á átta stundum,“ sagði hún jafnframt, en leikskólaráð kom saman í dag kl. 14.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka